Fréttir

Fundur um félagsmál hrossabænda Í Rangárhöllinni

Fundur verður í Rangárhöllinni í kvöld kl 20:00 (25.okt) . Á fundinum, sem er öllum opinn og haldinn af Hrossaræktarsamtökum Suðurlands verður farið yfir þær breytingar sem orðnar eru á félagskerfi Bændasamtaka Íslands og hvaða áhrif þær hafa á Félag hrossabænda. Mikilvægt er að félagsmenn og aðrir hesteigendur kynni sér þær breytingar sem framundan eru. Frummælendur á fundinum eru Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda og Unnsteinn Snorri Snorrason, starfsmaður Bændasamtaka Íslands.

Málefni hrossaræktarinnar og hestamanna - Fundarferð um landið

Almennir fundir um málefni hrossræktarinnar og félagsstarfsins verða haldnir um landið í október, þegar Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda og Elsa Albertsdóttir ræktunarleiðtogi íslenska hestsins verða á ferðinni.

Landsýning kynbótahrossa á Fjórðungsmóti Vesturlands

Á Fjórðungsmóti Vesturlands í Borgarnesi daganna 7-11 júlí hefur verið ákveðið að hluti dagskrár verði Landsýning á kynbótahrossum. Eigendum tíu efstu hrossa í öllum flokkum hryssna og stóðhesta eftir dóma vorsins gefst þar kostur á að koma og kynna sína gripi. Viðburðurinn verður vel kynntur, sýningin tekin upp og steymt þannig að hægt verður að fylgjast með Landssýningu kynbótahrossa um víða veröld. f.h Félags hrossabænda og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins Sveinn Steinarsson og Elsa Albertsdóttir.

Nokkur atriði varðandi kynbótasýningar 2021

Nú fer að líða að því að kynbótasýningar ársins fari að hefjast og er stefnt á 11 sýningar víðs vegar um landið. Fyrirkomulagið er með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár þar sem stefnan hefur verið tekin á að draga úr fjölda sýningarstaða til að reyna að stemma stigu við kostnaði við sýningar auk þess að með því móti er enn betur hægt að svara kröfum um frekari stöðlun sýningarstaða.

Afkvæmaverðlaun stóðhesta 2020

Hér má sjá myndband þar sem Elsa Albertsdóttir ræktunarleiðtogi íslenska hestsins kynnir þá stóðhesta sem hlutu afkvæmaverðlaun á árinu 2020. Alls voru þetta 6 hestar sem hlutu fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og 5 hestar sem hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Efstu hestar í báðum flokkum, þeir Skaginn frá Skipaskaga og Skýr frá Skálakoti, hlutu Orrabikarinn og Sleipnisbikarinn á Landssýningu kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum árið 2020.

Hrossaræktarárið 2020

Elsa Albertsdóttir ræktunarleiðtogi íslenska hestsins fer yfir tölulegar upplýsingar hrossaræktarársins 2020, helstu breytingar á dómsskalanum og áhrif þeirra á niðurstöður. Þá er farið stuttlega yfir síðustu breytingar í kynbótamatinu og áhrif þeirra á matið. Von bráðar verður birt samantekt um þá stóðhesta sem hlutu afkvæmaverðlaun á Íslandi árið 2020

Í minningu Hallveigar Fróðadóttur

Hallveig Fróðadóttir starfsmaður F.H.B. er látin eftir harða baráttu við krabbamein. Við samstarfsfélagar hennar sjáum á eftir einstakri konu sem vann störf sín af mikilli natni og einstökum áhuga á íslenska hestinum. Það er stórt skarðið sem Hallveig skilur eftir sig meðal okkar félaganna og samstarfsfólks hennar í Félagi hrossabænda. Hún var fulltrúi F.H.B. í markaðsverkefninu Horses of Iceland, verkefni sem hún sýndi ómældan áhuga og virkilega brann fyrir. Hallveig vann einnig um árabil við skrásetningar fyrir Worldfeng. Þar leysti hún úr öllum málum með sinni einstöku kurteisi og virðingu fyrir hesteigendum víða um heiminn. Hallveig stundaði hestamennsku sjálf af mikilli ástríðu og ræktaði sín reiðhross sjálf. Það var hennar hamingja. Við vottum hennar aðstandendum og fjölmörgu vinum okkar dýpstu samúð. f.h Félags hrossabænda Sveinn Steinarsson

Útflutningur á fullu skriði

Það virðist ekkert lát vera á áhuga erlendis frá fyrir íslenska hestinum. Frá áramótum með útflutningi, sem fyrirhugaður er næsta þriðjudag 30 mars, hafa alls verið flutt úr landi 1076 hross. Til samanburðar voru flutt úr landi árið 2020 alls 2324 hross sem er mestur fjöldi útfluttra hrossa síðan 1997 og árið 2019 voru hrossin 1509. Það stefnir því í annað met ár ef fram heldur sem horfir í heildarfjölda útfluttra hrossa miðað við þessar tölur fyrstu þrjá mánuði ársins. Mesta aukning er í fjölda hryssna og geldinga miðað við sama tíma í fyrra. Frá jan - mars loka í fyrra voru 107 stóðhestar fluttir úr landi, 147 geldingar og 240 hryssur alls 494 hross. Fyrir sama tímabil nú eru stóðhestarnir 125, geldingar 442 og hryssur 509.

Gleðilega hátíð kæru hestamenn

Þó svo að ekki hafi allt gengið samkvæmt áætlun árið 2020 þá getum við hestafólk ágætlega við unað. Við höfum getað stundað okkar áhugamál og tamningafólk atvinnu sína umfram marga aðra sem er þakkarvert. Vissulega hafa aðilar í hestaferðaþjónustu þurft að taka á sig mikið högg en vonandi mun næsta sumar reynast þeim farsælt. Mikil óvissa í upphafi líðandi árs setti óhug að fólki, áhrifin þekkjum við og er þeim líklega ekki alveg lokið. Með bóluefni hyllir sem betur fer undir breytingar og ætti seinni hluti ársins 2021 að verða líkari því sem við eigum að venjast hvað flest varðar. Gott útlit er fyrir að við getum við haldið okkar striki hvað varðar sýningar og mótahald en flestir leggja upp með að svo verði. Eitt er þó sem getum við verið ánægð með á árinu sem ber vott um grósku í greininni, að afar vel hefur gengið að selja hross þetta árið en alls hafa 2.321 hross verið flutt úr landi sem er 53% aukning frá fyrra ári og hefur ekki verið jafn gott um árabil eða síðan árið 1997. Hrossasala innanlands hefur einnig verið góð þó að ekki séu nákvæmar tölur yfir það. Það er vafalaust margt sem hefur áhrif á þessa góðu niðurstöðu en þar á meðal má nefna skipulagt markaðsstarf Horses of Iceland um árabil, markaðsstarf einstaklinga, hagstætt gengi, uppsafnaða þörf og vonandi líka aukinn áhugi á Íslandshestamennsku. Þetta er ánægjulegt ekki síst þar sem vaxandi fjöldi fólks hefur sótt sér menntun í hestafræðum og starfar við hestatengda starfsemi og þurfum við að halda áfram á þessari braut. Lykillinn að góðri framtíð í hestamennskunni tel ég að felist fyrst og fremst í hrossunum, þau þurfa að vera við hæfi og getu hvers reiðmanns, traust og vel tamin og þola það mikla áreiti sem hestar í þéttbýli þurfa að standast. Um leið og ég þakka félagsfólki mínu og hestafólki öllu fyrir samstarfið á árinu sem er að líða, óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs og hvet ég ykkur til að huga vel að hrossunum ykkar hvort sem er á húsi eða í haga áður en flugeldaæðið rennur á landsmenn. Með hátíðarkveðju, f.h Félags hrossabænda Sveinn Steinarsson, formaður

Hrossarækt 2020

Hér má nálgast myndbandið Hrossarækt 2020 sem framleitt er af Eiðfaxa. Þar verður farið yfir ræktunarárið og helstu viðurkenningar veittar en þær eru m.a. heiðursviðurkenning Félags Hrossabænda og ræktunarbú ársins 2020. Ákveðið var að hafa ráðstefnuna með þessu sniði í ljósi aðstæðna. Þátturinn er alls 47 mínútna langur og geymir ýmsan fróðleik sem enginn áhugamaður um hrossarækt ætti að láta fram hjá sér fara. Hér er hlekkur fyrir útsendinguna.