Tryggjum velferð hrossa á útigangi
21.11.2020
Íslenski hesturinn hefur lifað í íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær notið sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er öllum hrossum mikilvæg, einkum ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi. Því er æskilegt að hross sem ekki eru notuð til reiðar séu haldin á útigangi og á það ekki síður við um folöld en önnur hross. Ekki er æskilegt að halda fylfullar hryssur á húsi né láta þær kasta í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.
Hross eru allt sumarið að undirbúa sig fyrir komandi vetur þó haustið sé mikilvægasti tíminn í því tilliti. Að hausti þurfa öll hross, sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt að þau nái að safna nokkrum fituforða. Fitulag undir húð er einangrandi og eins þurfa hross á fitu að halda til brennslu á meðan stórviðri ganga yfir.