Hrossaræktarárið 2020

Elsa Albertsdóttir ræktunarleiðtogi íslenska hestsins fer yfir tölulegar upplýsingar hrossaræktarársins 2020, helstu breytingar á dómsskalanum og áhrif þeirra á niðurstöður. Þá er farið stuttlega yfir síðustu breytingar í kynbótamatinu og áhrif þeirra á matið. Von bráðar verður birt samantekt um þá stóðhesta sem hlutu afkvæmaverðlaun á Íslandi árið 2020

Í minningu Hallveigar Fróðadóttur

Hallveig Fróðadóttir starfsmaður F.H.B. er látin eftir harða baráttu við krabbamein. Við samstarfsfélagar hennar sjáum á eftir einstakri konu sem vann störf sín af mikilli natni og einstökum áhuga á íslenska hestinum. Það er stórt skarðið sem Hallveig skilur eftir sig meðal okkar félaganna og samstarfsfólks hennar í Félagi hrossabænda. Hún var fulltrúi F.H.B. í markaðsverkefninu Horses of Iceland, verkefni sem hún sýndi ómældan áhuga og virkilega brann fyrir. Hallveig vann einnig um árabil við skrásetningar fyrir Worldfeng. Þar leysti hún úr öllum málum með sinni einstöku kurteisi og virðingu fyrir hesteigendum víða um heiminn. Hallveig stundaði hestamennsku sjálf af mikilli ástríðu og ræktaði sín reiðhross sjálf. Það var hennar hamingja. Við vottum hennar aðstandendum og fjölmörgu vinum okkar dýpstu samúð. f.h Félags hrossabænda Sveinn Steinarsson

Útflutningur á fullu skriði

Það virðist ekkert lát vera á áhuga erlendis frá fyrir íslenska hestinum. Frá áramótum með útflutningi, sem fyrirhugaður er næsta þriðjudag 30 mars, hafa alls verið flutt úr landi 1076 hross. Til samanburðar voru flutt úr landi árið 2020 alls 2324 hross sem er mestur fjöldi útfluttra hrossa síðan 1997 og árið 2019 voru hrossin 1509. Það stefnir því í annað met ár ef fram heldur sem horfir í heildarfjölda útfluttra hrossa miðað við þessar tölur fyrstu þrjá mánuði ársins. Mesta aukning er í fjölda hryssna og geldinga miðað við sama tíma í fyrra. Frá jan - mars loka í fyrra voru 107 stóðhestar fluttir úr landi, 147 geldingar og 240 hryssur alls 494 hross. Fyrir sama tímabil nú eru stóðhestarnir 125, geldingar 442 og hryssur 509.